Þjálfi
Þjálfi
02 Aug, 2022

Lög Hestamannafélagsins Þjálfi

1. Félagið heitir Hestamannafélagið Þjálfi. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns hverju sinni.

2. Markmið félagsins er að efla áhuga á hestum og iðkun hestaíþrótta og jafnframt gæta hagsmuna félaga sinna á því sviði. Þessu markmiði hyggst félagið ná með því að meðal annars:

a. Að eiga og reka sýningar og keppnissvæði fyrir félaga sína.

b. Að reiðvegir séu gerðir sem víðast þannig að önnur umferð verði til sem minnstrar hindrunar og óþæginda. Vegum þessum sé ávallt haldið við eins vel og efni og aðstæður leyfa.

c. Að halda mannvirkjum í eigu félagsins í sem bestu ástandi og tryggja góða aðstöðu fyrir mótahald og hvers konar hestaíþróttir. Að kappreiðar og aðrar keppnisíþróttir verði háðar og sýningar haldnar á vegum félagsins eins oft og þurfa þykir. Heimilt er að starfrækja veðbanka í sambandi við kappreiðar enda fáist til þess tilskilin leyfi.

d. Að vinna að því að flutt séu á vegum félagsins fræðsluerindi og haldin námskeið um hestaíþróttir og önnur málefni á áhugasviði hestamanna.

e. Að efna til hópferða á hestum.

f. Að birta árlega skýrslu um helstu störf á vegum félagsins. Þar verði m.a. greint frá úrslitum í mótahaldi félagsins.

3. Félagar geta allir orðið. Nýjir félagar öðlast öll félagsréttindi með greiðslu árgjalds önnur en atkvæðisrétt á félagsfundum. Atkvæðisrétt öðlast þeir þegar félagsfundur hefur samþykkt umsóknina. Þeir félagar sem náð hafa sjötugsaldri skulu undanþegnir greiðslu árgjalds, enda hafi þeir verið félagar í a.m.k. fimm ár. Skulu þeir halda fullum réttindum til æviloka. Félagar bera ekki fjárhagslega ábyrgð vegna skuldbindinga félagsins umfram greiðslu árgjalds.

4. Félagar sem skulda árgjald frá fyrra ári, hafa ekki rétt til keppni á vegum félagsins né réttindi á fundum þess á nýju starfsári ( sem er hið sama og reikningsár félagsins ) fyrr en þeir hafa greitt skuld sína. Að öðrum kosti falla þeir út af félagaskrá 31. Des.

5. Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur, sem kosnir eru á aðalfundi skriflega og óbundinni kosningu. Formaður til eins árs en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára. Formann, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda skal kjósa skriflega hvern út af fyrir sig. Úr stjórninni ganga annað árið formaður, ritari og annar meðstjórnanda, en hitt árið formaður, gjaldkeri og hinn meðstjórnandinn. Stjórn kýs sjálf varaformann úr sínum hópi. Varastjórn skipa tveir menn. Skulu þeir kosnir skriflega til eins árs á hverjum aðalfundi. Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Komi til atkvæðagreiðslu í fjarveru aðalmanna taka varamenn sæti í aðalstjórn í samræmi við atkvæða fjölda. Forfallist gjaldkeri eða ritari skipar stjórnin einhvern úr sínum hópi í þeirra stað. Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur ásamt félagsstjórninni yfirumsjón með öllum framkvæmdum þess eins og ákvörðun aðalfundar og lög félgasins mæla fyrir. Formaður boðar stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Skylt er honum einnig að boða stjórnarfund ef þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundur er lögmætur ef minnst þrír stjórnarmenn eru mættir á fund. Ritari heldur gerðarbók á fundum. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Aðalfundur kýs tvo bókhaldsfróðamenn og tvo til vara til þess að enduskoða reikninga félagsins. Skoðunarmenn reikninganna þurfa ekki að vera félagar í Þjálfa. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6. Stjórn félagsins boðar félagsfund eins oft og þurfa þykir. Sama ef minnst 10 félagar æskja þess skriflega og tilfgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir bréflega með viku fyrirvara. Fundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

7. Aðalfund skal halda eigi síðar en í febrúar ár hvert og skal hann boðaður samkvæmt ákvæðum 6 gr. Dagskrá fundar sé:

a. Formaður leggur fram og skýrir fjölfaldaða skýrslu stjórnarinnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.

b. Gjaldkeri skýrir og leggur reikninga félagsins fram til samþykktar. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár skal jafnframt lögð fram ásamt lista yfir fyrirhuguð verkefni.

c. Kosning stjórnar og varastjórnar skv. 5. gr.

d. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og tveir til vara skv 5. gr.

e. Önnur mál er félagið varða.

8. Heimilt er stjórn félagsins að bera fram á aðalfundi tillögu um kjör á heiðursfélaga. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið, sem sínt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félagsins og markmiða þess. Á lögmætum aðalfundi þarf tvo þriðju atkvæða til þess að kjör heiðursfélaga sé lögmætt. Merki félagsins úr gulli skal fylgja útnefningunni

9. Reglur um kappreiðar skulu vera samkvæmt samþykktum L.H. Stjórn setur reglur um rekstur veðbanka samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi.

10. Stjórn félagsins ákveður hvenær hestamót skulu haldin.

11. Félagið er aðili að Landssambandi hestamannafélaga með þeim skyldum sem ársþing L.H. leggur á hestamannafélögin hverju sinni. Úrsögn ú L.H. getur lögmætur aðalfundur samþykkt með tveimur þriðju greiddra atkvæða. Formaður félagsins skal sjálfkjörinn fulltrúi á ársþing L.H. Aðrir fulltrúar félagsins samkv. Lögum L.H. skulu kjörnir skriflegri kosningu á aðalfundi þess.

12. Stjórn félagsins er heimilt að stofna deildir innan þess. Deildir innan félagsins eru bundnar af lögum þess og skal leita staðfestingar á deildarstofnun og sérlögum deilda á næsta aðalafundi Þjálfa.

13. Stjórn félagsins er óheimilt að selja fasteignir þess, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra, nema með samþykki lögmæts félagsfundar komi til. Ef stjórn hyggst leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun, skal gæta þess í fundarboði. Heimildir samkvæmt grein þessari skal nota innan tveggja ára frá því að þær eru veittar.

14. Árshátið félagsins skal haldin á hverjum vetri. Stjórn sér um undirbúning og framkvæmdir.

15. Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi þar sem mættur er minnst einn fimmti hluti lögmætra félaga og tveir þriðju greiddra atkvæða samþykkja breytinguna. Mæti of fáir skal boða til framhaldsaðalfundar og öðlast þá tillögur til lagabreytinga gildi ef tveir þriðju fundarmanna samþykkja þær án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar er félagar kunna að vilja bera fram skulu berast stjórninni eigi síðar en 31. des. Og skal geta þeirra í fundarboði.

16. Tillögur um félagsslit skulu sæta sömu meðferð og lagabreytingar. Komi til þess að félaginu verði slitið skal tillaga um hvernig eignum þess verði ráðstafað fylgja tillögu um félagsslit og sæta sömu reglum og afgreiðsla um félagsslit. Náist ekki samkomulag um ráðstöfun eignanna skulu þær afhentar Héraðsnefnd Suður Þingeyinga til varðveislu og ávöxtunar.

Stjórnin

Stjórnin

Stjórn Hestamannafélagsins Þjálfi

Skildu eftir skilaboð

Tengdir Póstar

Flokkar

Tenglar

FACEBOOKINSTAGRAMLandssamband Hestamannafélaga

Styrktaraðilar

SamherjiLíflandLandsvirkjunR&M ehf.Steinsteypir ehf.Sparisjóður Suður-ÞingeyingaNorðlenska
Þjálfi

Þjálfi

© Reykweb 2022